Dulítið um samgöngur vestra.

Samgönguáætlun fyrir næstu 4 ár er komin fram sem og samgönguáætlun til næstu 10 ára. Nokkrar óánægjuraddir hafa heyrst vegna áætlunarinnar og er það í raun að vonum. Hins vegar er ekki hægt að draga dul á það að í áætluninni eru einnig jákvæðir punktar. Mikilvægt er að koma samgöngumálum Bolvíkinga í ásættanlegt horf og undarlegt að sú þyngd sem hefur verið gagnvart þeim málum hafi ekki komið í ljós fyrr en nú, seinni part yfirstandandi kjörtímabils. Eins er fagnaðarefni hvað snertir okkur íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum að áætlað sé að verja nálægt 2,3 milljörðum króna í vegabætur milli Svínadals og Flókalundar. Hitt er aftur verra að jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar hafa verið færð til í áhersluröðun þannig að í stað þess að hefja verkið á þessu ári eru allar líkur á að það hefjist í fyrsta lagi árið 2011. Það er nú reyndar ekkert nýtt að bættar samgöngur milli norður og suður hluta Vestfjarða færist aftur á við í áhersluröð þegar nýjar vegaáætlanir eru kynntar. Þetta hefur gerst í hvert einasta skipti sem ný vegaáætlun/samgönguáætlun er kynnt um allangt skeið. Hvernig í ósköpunum stendur á því?? Spyr sá sem ekki botnar neitt í ástæðunum. Það er að vonum að ráðamenn norðan heiða fagni þeim framkvæmdum sem komnar eru á lokastig undirbúnings eða framkvæmdastig í Djúpinu og Arnkötludal. Ég gleðst með þeim. En það er algerlega ólíðandi og óásættanlegt að vegabætur milli Dýrafjarðar og Barðastrandar séu ekki inni í myndinni fyrr en eftir 2011.  Hvað jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar segir í vegaáætlun til 2017. “Jafnframt verður, vegna nauðsynlegra samgöngubóta milli norður- og suðurhluta Vestfjarða, unnið að rannsóknum, hönnun og öðrum undirbúningi að Arnarfjarðargöngum árin 2007 og 2008. Göngin verða boðin út þannig að hefja megi framkvæmdir strax að lokinni vinnu við Óshlíðargöng. Varðandi Dynjandisheiði segir svo í vegaáætlun til 2017. “Lagt er til að unnið verði að endurbyggingu vegarins yfir heiðina á þriðja áætlunartímabili og henni lokið.” Varðandi Vestfjarðaveg milli Vatnsfjarðar og Þórisstaða segir í vegaáætlun til 2017.“Lagt er til að unnið verði að framkvæmdum á þessum vegi allt áætlunartímabilið og honum lokið.” Þarna eru bæði frekar jákvæðar staðreyndir og minna jákvæðar.Jákvæði hlutinn er að það á að vinna í veginum um Barðaströnd öll þessi 10 ár og þegar þeim lýkur á að vera komið bundið slitlag á alla leiðina frá Bíldudal til Reykjavíkur. Það er hins vegar ekki fyrr en á seinni hluta þessa 10 ára tímabils sem fara á af einhverjum krafti í að endurbæta vegasamgöngur milli norðan og sunnanverðra Vestfjarða. Það er mjög miður. Hefja þarf strax í sumar vinnu við undirbúning að gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og um leið þarf að fara af fullum krafti í þá vinnu sem fram þarf að fara vegna undirbúnings vegar úr Arnarfirði í Vatnsfjörð á Barðaströnd. Þetta er nauðsynlegt ef ekki á að fara fyrir byggð á sunnanverðum Vestfjörðum líkt og gerðist til að mynda á Hornströndum og í Jökulfjörðum á síðustu öld.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ég heyrði langt viðtal Finnboga Hermannssonar við Úlfar Thoroddsen, forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Af málflutningi Úlfars mátti ráða, að hreinlega stæði ekki steinn yfir steini í samgönguáætluninni hvað hans svæði varðar. Varla að ég hafi heyrt aðra eins yfirhalningu og áætlunin og stjórnvöld fengu hjá honum. Hins vegar kom fram í fréttum, að hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps fagnaði þeim áherslum sem fram kæmu í áætluninni! Þar eð Tálknafjarðarhreppur er eins og eyja í Vesturbyggð kem ég þessu ekki alveg heim og saman - skil það ekki.

Hlynur Þór Magnússon, 20.2.2007 kl. 09:37

2 Smámynd: Ingólfur Kjartansson

Sæll Hlynur, gott að sjá innlegg frá Reykhólum. Ég bókaði ekki athugasemd við bókun Tálknafjarðarhrepps um vegamál, lét hins vegar í ljós það álit mitt að mér þætti seinkun á jarðgangagerð undir Hrafnseyrarheiði slæmt mál. Ef til vill þarf að láta bóka allt svona þannig að ekkert fari á milli mála. Úlfar skrifaði á dögunum, ásamt öðrum, greina á bb.is sem þú hefur eflaust lesið varðandi Kollafjarðargöng sem fór ekki sérlega vel í Tálknfirðinga þannig að það virðist verða að taka með varúð hans skoðunum í þessu máli. Ég er hins vegar á því að hér sé fólk orðið gífurlega langþreytt á endalausum loforðum um bætur í þessum málum sem svo sífellt er seinkað, meðal annars vegna þrýstings ákveðins hóps ráðamanna og fleiri raunar á Norðanverðum Vestfjörðum. Hins vegar, varðandi tengingu norður og suðurhlutans þá er líka mikilvægt að velja bestu leiðinu og bestu vegalagninguna. Að því leyti þarf að gefa sér góðan tíma. Góður tími er hins vegar ekki endilegaþað sama og langur tími. Samgönguáætlun er einungis áætlun. Það er ekkert í hendi þar og við hér vestra þurfum að halda vöku okkar og beita þrýstingi um að þær samgöngubætur sem áætlaðar eru þessi næstu 10 ár standi og gott betur jafnvel.

Ingólfur Kjartansson, 20.2.2007 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband