9.12.2006 | 22:26
Jólasveinarnir koma??!!
Bloggari lagði land undir dekk á föstudag seinnipartinn, eftir að hafa setið yfir í prófi hjá nemanda í fjarnámi, en auðsótt mál hefur verið hjá þeim "fjölda" fjarnámsnema á framhalds- og háskólastigi sem hér býr að fá að taka próf sína í skólanum, inn í þorp. Ætlunin var að njóta þess atburðar sem merkur þykir á aðventu og er tendrun ljósa á jólatré þorpsins. Í fyrra var ljómandi hátíð þar sem fjöldi bæjarbúa lagði leið sína á Lækjartorg, hvar tréð stendur, til að gleðjast. Jólasveinarnir kíktu við og viðstaddir sungu saman nokkur lög. Ekki var þessu fyrir að fara núna þrátt fyrir að auglýst hafi verið á vef hreppsins að jólasveinarnir myndu kannski láta sjá sig. Ekki bólaði á sveinunum góðu og smáfólkið sem skoppaði glatt um grund varð nokkuð vonsvikið en lét samt á litlu bera. Það er kannski ekki skrítið að sveinarnir hafi ekki látið sjá sig þar eð yfirsveinkan var jú ekki heima til að hafa stjórn á uppákomunni. Heimamenn eru raunar orðnir nokkuð lúnir á fjarveru yfirmanns sveitarfélagsins og ekki bætir "vara" yfirmaðurinn þá fjarveru upp. Hann er jafnvel meira í burtu ef eitthvað er. Ekki það að ég sakni þeirra en það færi nú betur á því að forsvarsmenn sveitarfélagsins væru meira heima hjá sér en raunin er.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.